„Við gerum okkur grein fyrir því að við stigum mjög seint fram þannig að við lítum á þetta sem kapphlaup fram á síðustu stundu. Markmið okkar er að kalla nógu hátt síðustu dagana svo það heyrist til okkar. Við gerum okkur enn von um að ná inn manni í borgarstjórn, jafnvel tveimur mönnum,“ segir Baldvin Jónsson oddviti Reykjavíkurframboðsins (E) sem mældist með 0,6 prósent fylgi í könnun Miðlunar fyrir Morgunblaðið sem birt var í morgun.
Baldvin segir Reykjavíkurframboðið leggja áherslu á að færa fram hugmyndir og lausnir. „Við höfum að sjálfsögðu skilning á því andófi og þessari stemmingu sem myndast hefur í kringum Besta flokkinn. En menn verða líka að koma fram með einhverjar lausnir.
Við teljum okkur vera með afskaplega góð málefni til að berjast fyrir og þessa síðustu daga munum við reyna að fá fólk til að horfa á málefnin. Það eru margir sem vita ekki af okkur ennþá og það fer því miður lítið fyrir málefnalegri umræðu. Okkur finnst gjarnan að stóru flokkarnir séu feimnir við að ræða málefnin af ótta við að því verði snúið upp í grín," segir Baldvin.