„Við gerum okkur grein fyrir því að við stigum mjög seint fram þannig að við lítum á þetta sem kapphlaup fram á síðustu stundu. Markmið okkar er að kalla nógu hátt síðustu dagana svo það heyrist til okkar. Við gerum okkur enn von um að ná inn manni í borgarstjórn, jafnvel tveimur mönnum,“ segir Baldvin Jónsson oddviti Reykjavíkurframboðsins (E) sem mældist með 0,6 prósent fylgi í könnun Miðlunar fyrir Morgunblaðið sem birt var í morgun.
Baldvin segir Reykjavíkurframboðið leggja áherslu á að færa fram hugmyndir og lausnir. „Við höfum að sjálfsögðu skilning á því andófi og þessari stemmingu sem myndast hefur í kringum Besta flokkinn. En menn verða líka að koma fram með einhverjar lausnir.