„Ég held að fólk sé bara að gera upp hug sinn núna þessa síðustu daga. Ég held að þetta ráðist á síðustu metrunum," segir Helga Þórðardóttir oddviti Frjálslynda flokksins í borginni en flokkurinn nær ekki inn manni samkvæmt könnun Morgunblaðsins.Frjálslyndi flokkurinn mælist með 0,6 prósent fylgi í könnuninni.
Helga segist í samtali við Kosningavef mbl.is ekki hafa trú á því að það verði niðurstaða kosninganna. „Við erum að koma mjög seint inn og ég held að okkar málflutningur eigi eftir að komast betur til fólksins. Það er engan bilbug á mér að finna, enda geri ég þetta vegna hugsjónanna. Ég vil ennþá trúa því að fólk horfi á hugsjónir í kjörklefanum. Ég vona bara að fólk taki þátt og sýni vilja sinn í kosningunum.
Mér hefur þó fundist sorglegt að upplifa hvað allt á að vera mikið grín og djók, jafnvel þó við séum að standa frammi fyrir mikilli kreppu og erfiðleikatímum,“ segir Helga.
Hún er ekki sátt við þá ákvörðun Stöðvar 2 að hafa minni framboðin ekki með í kosningasjónvarpi sínu. „Maður spyr sig hvort það sé eðlilegt að skoðanakannanir ráði ferðinni hjá fjölmiðlum. Ég held að það sé hættuleg þróun.“