„Það verður kosið á Sólheimum á morgun,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Selfossi, aðspurður hvort boðið verði upp á utankjörstaðaatkvæðagreiðslu á Sólheimum í Grímsnesi vegna sveitarstjórnarkosninganna um helgina.
„Þetta var hitamál síðast en hins vegar var þá orðið ljóst að athuga þyrfti hvort þetta teldist stofnun [...] Ég er ekki með lögin fyrir framan mig en þar er nákvæmlega tilgreint hvar opna eigi utankjörfundaratkvæði,“ sagði Ólafur Helgi þar sem hann var í fríi erlendis.
„Þá erum við að tala um sjúkrahús, fangelsi og stofnanir eins og til dæmis elliheimili eða heilsustofnanir. Sólheimar hafa ekki verið skilgreindir sem stofnun. Það hefur ekki verið ljóst hver túlkunin væri í tilfelli Sólheima en það verður kosið þar á morgun.“
Rúmlega 40 fatlaðir einstaklingar bjuggu í Sólheimum þegar kosið var í alþingiskosningunum 2007. Á kosningavef dómsmálaráðuneytisins kemur fram að kjósendur á kjörskrá í hreppnum séu 301, 136 konur og 165 karlar.
Eftir kosningarnar árið 2006 kærðu fulltrúar eins framboðslistans í Grímsnes- og Grafningshreppi utankjörfundaratkvæðagreiðsluna á Sólheimum og töldu framkvæmd hennar hafa varðað við lög. Sérstök nefnd sem sýslumaðurinn á Selfossi skipaði taldi hins vegar að ekkert hefði verið athugavert við framkvæmdina og félagsmálaráðuneytið staðfesti síðan þá niðurstöðu.