„Ég er jákvæður gagnvart því að við séum aftur á leiðinni upp. Miðað við hversu margir eru óákveðnir þá getur mjög mikið gerst fram að kjördegi. Við ætlum að halda áfram af fullum krafti og finnum fyrir góðum hljómgrunn.
Við erum öll að koma ný inn á lista og ég er viss um að fólk vill endurnýjun," segir Einar Skúlason oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík inntur eftir viðbrögðum við könnun Miðlunar fyrir Morgunblaðið á fylgi flokkanna í borginni.
Framsóknarflokkurinn mælist með 4,1 prósent fylgi og nær ekki manni í borgarstjórn samkvæmt könnuninni.
Einar telur áhuga á kosningunum vera að aukast. „Áhugi borgarbúa er meiri en hann hefur verið undanfarnar vikur. Fólk virðist vera að átta sig meira og meira á því hvað kosningarnar eru mikilvægar, það er bara kosið á fjögurra ára fresti. Það er ekki hægt að kjósa eftir á, það er ekki hægt að slíta borgarstjórn og kjósa aftur," segir Einar Skúlason.