Ólafur: Könnunin ómarktæk

Ólafur F. Magnússon, oddviti H-listans.
Ólafur F. Magnússon, oddviti H-listans.

Ólafur F. Magnússon, oddviti H-listans, segist ekki taka mark á könnun sem var birt í Morgunblaðinu í dag. Skv. henni mælist framboðið með 0% stuðning. Nú þegar séu fjölmiðlar þegar farnir að notfæra sér þetta. Framboðið fái ekki að taka þátt í umræðuþætti á Stöð 2 þar sem rætt verði við oddvitana í Reykjavík.

Hann segir að Stöð 2 hafi haft samband við sig og tjáð sér að þar sem framboðið hafi mælst með lítið fylgi í könnunum verði H-listinn ekki á meðal þeirra þeirra sem muni koma fram í umræðuþættinum nk. föstudag. Aðeins oddvitar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Besta flokksins og Framsóknarflokksins.

„Mér finnst þetta yfirgengilegt. Ég er búinn að vera borgarfulltrúi í 20 ár. Ég er fráfarandi borgarstjóri. Ég hef verið lagður í gríðarlegt einelti en staðið mig samt og aldrei svikið sannfæringu mína,“ segir Ólafur og kveðst harma það að fá ekki tækifæri til að rökræða við oddvitana.

Hvað varðar stuðning H-listans í Reykjavík segir Ólafur eiga mikið inni. „Ég er heimilislæknir hátt á annað þúsund Reykvíkinga og ég veit það frá fyrstu hendi að verulegur meirihluti þeirra, og ýmsir þeim tengdir, hafa ávallt kosið mig og munu gera það áfram. Því þeir vita að ef einhver sker sig frá hinum í borgarstjórn, þá er það ég en ekki aula- og mútuþægniframboð Jóns Gnarr Kristinssonar,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Spurður nánar út í þessa fullyrðingu segir Ólafur að það sé mútur að taka við styrkjum. „Það er bannað samkvæmt sveitastjórnarlögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka