Fulltrúar Á-lista óskuðu eftir því á bæjarstjórnarfundi á Álftanesi í gærkvöld að samþykkt yrði fimm milljóna króna framlag til sumarnámskeiða fyrir börn. Tillögunni var vísað frá með fjórum atkvæðum gegn þremur. Í fundargerð er vísað til bágrar fjárhagsstöðu bæjarfélagsins.
Tillaga Á - lista var svohljóðandi: „Bæjarstjórn samþykkir að veita 5 milljón króna viðbótarfjármagni til sumarnámskeiða á komandi sumri svo að hægt sé að bjóða upp á sambærilega þjónustu og verið hefur undanfarin ár. Til að mæta þessum kostnaði verði skorið niður í yfirstjórn og þjónustukaupum bæjarskrifstofu."
Í tillögunni er ekki skýrt nánar hvernig skorið skuli niður.
Í tilkynningu frá Á - lista vegna málsins segir að bæði UMFÁ og Skátafélagið Svanir hafi boðið upp á sumarnámskeið sem hafi verið vel sótt. Á bæjarstjórnarfundinn í gær barst tölvubréf frá Skátafélaginu Svönum þar sem segir að félagið „sjái sér ekki fært að standa fyrir slíkum námskeiðum sé ekki hægt að útvega fjármagn til að ráða tilskilinn fjölda starfsmanna."
Í kjölfarið óskaði Á - listi eftir því að tillagan yrði tekin upp að nýju en henni var þá aftur vísað frá, að því er fram kemur í fundargerð.
„Ljóst er að bæði margir foreldrar og börn hafa reitt sig á þessa þjónustu og setur þetta því strik í reikninginn fyrir margar fjölskyldur á Álftanesi."
Þá er þess getið í tilkynningunni að íþrótta- og tómstundafulltrúa Álftaness hefur verið sagt upp störfum frá 1. júní n.k. og ekki hafi verið ráðið í starfið. Fulltrúinn hafi m.a. það hlutverk að skipuleggja sumarnámskeið og stýra vinnuskóla unglinga.
„Fulltrúar Á-lista telja það ámælisvert að leysa ekki þennan brýna vanda strax með annarri forgangsröðun," segir í tilkynningunni.