Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna gagnrýndi á fundi borgarráðs Reykjavíkur í dag að að ekki skyldi skipað í sérstaka rannsóknarnefnd borgarinnar á fundinum í dag eins og til stóð. Málið var ekki á dagskrá borgarráðs í dag.
Borgarráð samþykkti 6. maí sl. að skipa nefnd til að framkvæma viðamikla rannsókn á stjórnsýslu, stjórnkerfi, og aðkomu stjórnmálafólks, að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum.
Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG, segir í bókun sem hann lagði fram á borgarráðsfundinum í dag, að til hafi staðið að skipa í nefndina á borgarstjórnarfundi 18. maí en þegar ljóst var að það tækist ekki hefði Þorleifur lagt til að skipað yrði í nefndina á borgarráðsfundinum í dag.
„Borist hefur fjöldi umsókna og tilnefninga í nefndina og um það var rætt að málið hefði forgang þegar tímafrestur væri liðinn sem var á mánudagskvöld. Borgarstjóri boðaði fund um málið sem svo var afboðaður stuttu síðar, þannig að engin vinna kjörinna fulltrúa hefur farið fram vegna skipunar í nefndina og málið er ekki á auglýstri dagskrá borgarráðs þrátt fyrir ákvörðun borgarstjórnar. Þar með er það sennilega fullreynt, nú tveimur dögum fyrir kosningar að ákvörðun um umfangsmikla rannsókn á stjórnsýslu borgarinnar var bara „djók“ í huga Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og félaga," segir í bókun Þorleifs.
Þorleifur sagði við mbl.is, að engin niðurstaða hefði fengist á fundi borgarráðs í dag og því óljóst hvar málið sé á vegi statt.