Horfast þarf í augu við ruglið

Oddvitar framboða fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík í vor þegar þeir …
Oddvitar framboða fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík í vor þegar þeir tókust á á opnum fundi í húsakynnum Háskólans í Reykjavík fyrr í mánuðinum. mbl.is/Golli

„Það hefur verið ákveðið rugl í Reykjavík og það þarf að horfast í augu við það. Mér finnst þessi niðurstaða hins vegar ekki endurspegla ábyrgðina á því rugli,“ segir Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar, um niðurstöðu nýrrar könnunar sem sýnir að Besti flokkurinn fái 6 borgarfulltrúa og Samfylkingin aðeins þrjá.

Þetta kom fram í umræðum oddvita flokkanna sem bjóða fram í Reykjavík í sjónvarpssal Ríkissjónvarpsins nú undir kvöld. 

Sagði Dagur að ef ekki tækist að stoppa ruglið núna þá væri hætta á því að almenningur missi trúna á pólitíkina.

Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna, sagði það sorglegt ef Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi Vinstri grænna næði ekki inn í borgarstjórn þar sem hann hefði verið ötull talsmaður réttlætis og betri borgar á síðustu árum. Samkvæmt fyrrgreindri könnun stefnir allt í að Vinstri grænir nái aðeins inn einum manni. 

Allt bendir til þess að Framsóknarflokkurinn nái ekki inn neinum manni. Inntur viðbragða við því sagði Einar Skúlason, oddviti Framsóknar, ljóst að verið væri að refsa öllum fjórflokkunum fyrir efnahagshrunið þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn hefði tekið vel til í sínum ranni og mikil endurnýjun hafa orðið á frambjóðendum flokksins í Reykjavík. 

Ólafur F. Magnússon, oddviti H-listans framboðs um heiðarleika og almannahagsmuni, spáir því að hann nái 7% í kosningunum á morgun þrátt fyrir að skoðunarkannanir bendi til þess að framboð hans nái ekki 1%. Sagðist hann byggja það á reynslu síðustu tveggja kosninga þar sem fylgi hans hafi mælst lítið í aðdraganda kosninga en hann síðan staðið uppi sem sigurvegari. 

Jón Gnarr, oddviti Besta flokksins, útskýrði gott gengi síns flokks með því að í honum felist ný von. 

Einar lagði áherslu á þær miklu breytingar sem orðið hafi innan Framsóknarflokksins. Sagði hann flokkinn öfgalausan miðjuflokk og sem slíkur væri hann nauðsynlegur í borgarstjórn. Minnti hann á að oft hefði verið talað um að Framsóknarflokkurinn hafi verið límið í Reykjavíkurlistanum auk þess sem flokkurinn hafi verið ákveðin kjölfesta í íslenskum stjórnmálum. 

Hanna Birna var spurð út í kröfu kjósenda um nýtt fólk, en fremur lítil endurnýjun varð á lista flokksins í forvali og hvers vegna kjósendur ætti að kjósa flokkinn í ljósi þeirrar kröfu. Hanna Birna sagði ljóst að það rugl sem viðgengist hefði framan af kjörtímabilinu hafi ekki verið boðlegt, en Sjálfstæðisflokkurinn á síðustu tveimur árum beitt sér af krafti fyrir nýjum vinnubrögðum þar sem borgarfulltrúar þvert á flokka hafi tekið höndum saman og sameinast um góð mál. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert