Wall Street Journal fjallar í dag um borgarstjórnarkosningarnar, þar sem framboð Besta flokksins er í brennidepli. Fjallað er um hvernig flokkurinn hafi náð til fjölda kjósenda, sem séu reiðir, vonsviknir og langþreyttir á „hefðbundnum“ stjórnmálum.
Það geri stór hluti kjósenda í Reykjavík, ef marka megi kannanir.
Blaðamaður Wall Street Journal bendir á að framboðið, sem íslenski grínarinn Jón Gnarr leiði, hafi sprottið upp úr þeirri óánægju sem ríki meðal landsmanna í kjölfar fjármálahrunsins, og þeirri reiði og vantrausti sem ríki gagnvart stjórnmálamönnum.
Þá bendir blaðamaðurinn á að margir íslenskir stjórnmálamenn líti á þann mikla stuðning sem Besti flokkurinn hefur fengið í skoðanakönnunum sem dauðans alvöru. Haft er eftir Ólínu Þorvarðardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, að grínið hafi gengið of langt.
En bæði stjórnmálamenn og bloggarar hér á landi hafa bent á það sé stóralvarlegt ef flokkur komist til valda í Reykjavík sem hafi enga reynslu eða þekkingu á rekstri borgarinnar. Jón Gnarr hefur hins vegar sagt í íslenskum fjölmiðlum að ef hann komist til valda muni vinna náið með starfsmönnum borgarinnar að því að leysa málin.
Greinin í Wall Street Journal.