Ekki bæjarmálastefnu um að kenna

Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri á Akureyri og oddviti Samfylkingarinnar, til …
Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri á Akureyri og oddviti Samfylkingarinnar, til vinstri. Sigurður Guðmundsson, oddviti Bæjarlistans er til hægri en skv. fyrstu tölum er hann nýr bæjarfulltrúi. Fyrir aftan þá er Oddur Helgi Halldórsson bæjarfulltrúi L-listans sem nær hreinum meirihluta skv. fyrstu tölum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta er ótrúlegt; eitthvað sem ég gat ekki ímyndað mér að myndi gerast og ég átta mig satt að segja ekki á því á hvaða forsendum Akureyringar taka þennan pól í hæðina,“ sagði Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar við Fréttavef Morgunblaðsins eftir að fyrstu tölur voru birtar í kvöld. Samfylkingin fær skv. þeim 1 bæjarfulltrúa en missir annan.

Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hafa verið í meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar á kjörtímabilinu.

Hermann Jón segist ekki telja að bæjarmálastefnu Samfylkingarinnar sé að kenna um slæmt gengi. „Það er eitthvað annað sem ræður för, ég held að niðurstöðuna verði fyrst og fremst að tengja við ákveðið uppgjör við stjórnmálin.“ Það sé í raun augljóst því enginn fjórflokkanna svokölluðu nái árangri.

En er niðurstaðan persónulegt áfall fyrir bæjarstjórann?

„Ég á eftir að velta því fyrir mér. Ég veit ekki betur en ég hafi unnið mjög vel fyrir Akureyrarbæ og ef þessi höfnun er ekki vegna verka minna er hún ekki persónulegt áfall. En ég er auðvitað oddviti listans, hann nær engan vegin viðunandi árangri og á vissan hátt er niðurstaðan dómur yfir því sem við höfum verið að gera. En það er erfitt að átta sig á stöðunni og því andrúmi sem ríkir,“ sagði Hermann Jón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert