Ekki víst að fylgið gufi upp í kjörklefanum

Kjörseðillinn í Reykjavík er breiðari en oft áður, enda þurfti …
Kjörseðillinn í Reykjavík er breiðari en oft áður, enda þurfti að koma þar fyrir átta framboðslistum. mbl.is/Júlíus

Nýjum framboðum utan flokka hefur verið spáð góðu gengi í kosningunum. Stuðningur við ný framboð í skoðanakönnum mun ekki endilega gufa upp í kjörklefanum þótt almennt hafi kjósendur tilhneigingu til að eiga auðveldara með að yfirgefa sinn flokk í könnunum en í kjörklefanum, að mati stjórnmálafræðings.  

Óvenju margir listar bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum nú eða alls 185 listar í þeim 58 sveitarfélögum þar sem gengið er til hlutfallskosningar.

Í Reykjavík, stærsta sveitarfélagi landsins, eru átta listar í framboði og í því næst stærsta, Kópavogi, bítast sjö framboðslistar um sæti í bæjarstjórn. Víða um landið hafa sprottið upp ný framboð íbúa sem eru ótengd flokkum. Þær skoðanakannanir sem birtar hafa verið í aðdraganda kosninga benda til þess að framboð óháð flokkum fái mikið fylgi í kosningunum.

Ástandið nú gjörólíkt öllu öðru

„Almennt er tilhneigingin sú að fólk á auðveldara með að yfirgefa sinn flokk í skoðanakönnunum en í kjörklefanum. Hins vegar er ástandið núna svo gjörólíkt öllu öðru og hið gríðarlega vantraust á stjórnmálamönnum segir manni að það muni ekki gerast í jafnmiklum mæli og ætla mætti.

Ég er ekkert svo viss um að stuðningurinn við Besta flokkinn og önnur ný framboð gufi neitt upp. Miklu fleiri en ella munu halda sig við að senda stjórnmálamönnum tóninn í kjörklefanum,“ segir Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri í samtali við Kosningavef mbl.is. 

Alls eru boðnir fram 83 framboðslistar í 58 sveitarfélögum undir öðrum bókstöfum en listabókstöfum flokkanna, í síðustu kosningum voru þeir 84 en þá í 60 sveitarfélögum. Í síðustu kosningum voru aðeins fimm sveitarfélög með fleiri en fjóra framboðslista en nú eru þau níu

„Ég held ég geti fullyrt að það hefur aldrei borið eins mikið á framboðum utan hins hefðbundna flokkakerfis og nú. Hins vegar eru það ekki ný saga að svona framboð komi fram.Víða á landsbyggðinni, sérstaklega í minni sveitarfélögum, þá eru þessar hefðbundnu fjórflokkalínur ekki til staðar,“ segir Grétar Þór

Kjósendur eru ekki að grínast

„Þótt framboð t.d. Besta flokksins hafi verið kallað grínframboð þá taka svona framboð oft óánægjufylgið til sín, það virðist almennt vera stærsti hlutinn. Að mínu mati segir þetta klárlega margt um vilja kjósenda, vantraust á stjórnmálamönnum og almenna óánægju,” segir Eva Heiða Önnudóttir stjórnmálafræðingur og kennari við Háskólann á Bifröst.

Eva Heiða nefnir að það sé vel þekkt að í sveitarstjórnarkosningum í Bretlandi sé þeim sem eru við völd í ríkisstjórn jafnan refsað í sveitarstjórnarkosningum séu kjósendur óánægðir með ástand mála í landinu.

„Þetta hefur þó ekki sést áður hér á landi en sem dæmi má nefna að í milliþingskosningum í Bandaríkjunum, sem haldnar eru á tveggja ára fresti, þá er greinilegt að sé óánægja með valdhafa í Hvíta húsinu þá tapar þeirra flokkur fylgi. Það er vel mögulegt að það sé tenging milli óánægju með störf ríkisstjórnarinnar og minna fylgis ríkisstjórnarflokkanna í borgarstjórn,” segir Eva Heiða

Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðingur.
Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðingur.
Eva Heiða Önnudóttir stjórnmálafræðingur.
Eva Heiða Önnudóttir stjórnmálafræðingur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert