„Þetta er mikið áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Í raun er niðurstaðan mikið áfall fyrir alla flokka á Akureyri nema L-listann,“ sagði Sigrún Björk Jakobsdóttir oddviti sjálfstæðismanna við Fréttavef Morgunblaðsins eftir að fyrstu tölur voru birtar þar í kvöld.
Sigrún Björk sagði alla „gömlu“ flokkana í bænum þurfa að horfa inn á við og meta stöðu sína eftir þessa niðurstöðuna.
Ástæðurnar fyrir þessu gríðarlega fylgistapi Sjálfstæðisflokksins í bænum segir Sigrún Björk eflaust margar. „Bæði ástandið í þjóðfélaginu og eins höfum við verið að vinna að umdeildum málum, til dæmis í skipulagsmálum. Þá finn ég fyrir mikilli óánægju með bæjarstjóraskiptin,“ sagði Sigrún. Þrír hafa gegnt því embætti á kjörtímabilinu; fyrstur Kristján Þór Júlíusson flokksbróðir hennar, síðan Sigrún sjálf og loks Hermann Jón Tómasson oddviti Samfylkingarinnar, en flokkarnir hafa myndað meirihluta í bæjarstjórn síðustu fjögur árin. „Við höfum samt gert margt mjög gott en virðumst ekki hafa náð að koma því áleiðis til fólks.“
Í fréttum nýverið var greint frá kaupmála sem Sigrún og eiginmaður hennar gerðu með sér fyrir nokkrum misserum. Þau tíðindi voru töluvert gagnrýnd sem og viðbrögð Sigrúnar í sjónvarpsviðtali þar sem hún taldi einkennilegt að þurfa að ræða málið frekar en stefnumál í aðdraganda kosninga. „Ég trúi því ekki að það mál hafi þessi áhrif. Ég hef skynjað pirring en hef reynt að útskýra málið fyrir flokksmönnum mínum og veit ekki annað en þær skýringar hafi verið teknar gildar.“
Sigrún Björk segir niðurstöðuna vera ákall um breytingar, „og menn halda að þarna séu komnar nýjar línur. Ég óska L-listanum alls hins besta í þeim erfiðu verkefnum sem eru framundan.“
Spurð hvort útkoma Sjálfstæðisflokksins sé persónulegt áfall fyrir hana, segir Sigrún: „Já, auðvitað er þetta persónulegt áfall fyrir mig. Maður hlýtur að hugsa sinn gang eftir svona lagað.“