Kosið verður til sveitarstjórna í dag og eru kjörstaðir almennt opnir frá kl. 9 árdegis til kl. 22. Skömmu eftir lokun kjörstaða ættu fyrstu tölur að liggja fyrir.
Mikil spenna er í flestum sveitarfélögum og óvissa, enda benda skoðanakannanir til að mikil endurnýjun muni eiga sér stað.
Samkvæmt könnun sem Capacent gerði fyrir Ríkisútvarpið og birt var í gærkvöldi fengi Besti flokkurinn sex borgarfulltrúa í Reykjavík, einum minna en samkvæmt könnun sem Capacent gerði fyrir Morgunblaðið og birt var í vikunni. Sjálfstæðisflokkur bætir í sömu könnun við sig einum manni og fengi fimm, Samfylkingin þrjá og Vinstri grænir einn. Önnur framboð næðu ekki manni inn í borgarstjórn.