„Við erum glöð og þakklát. Þetta er ekki eins manns verk heldur erum við með mjög sterkan lista og mikið og gott mannval og það skóp þennan sigur,“ segir Ísólfur Gylfi Pálmason, oddviti framsóknarmanna í Rangárþingi eystra. Framsóknarflokkurinn í samstarfi við framfarasinna fékk þar hreinan meirihluta, eða tæplega 54% greiddra atkvæða, sem skilaði honum fjórum af sjö sveitarstjórnarmönnum.
„Þetta er besti árangurinn hjá flokknum á landsvísu,“ segir Ísólfur Gylfi. Spurður hvernig hann skýri gott gengi flokksins í sveitarfélaginu segir Ísólfur Gylfi það vera blöndu af góðum málefnum og framúrskarandi fólki.
Að sögn Ísólfs Gylfa tekur nýr meirihluti við 15. júní nk. Tekur hann fram að menn hafi enn ekki skipt með sér verkum. „Ég þarf að klára þau verkefni sem fylgja núverandi starfi mínu sem sveitarstjóri í Hrunamannahreppi á Flúðum áður en ég tek við sveitarstjórnarstarfinu í Rangárþingi eystri sem eru mínir heimahagar sem ég sæki í ,“ segir Ísólfur Gylfi. Tekur hann fram að sér þyki afar vænt um það að vera snúa heim í heimabyggð sína, en hann er fæddur og uppalinn í sveitarfélaginu. Ítrekar hann að sér þyki auðvitað eftirsjá af Hrunamannahreppi enda mörg spennandi verkefni þar framundan.
Spurður hver séu brýnustu verkefnin í Rangárþingi eystri segir Ísólfur Gylfi ljóst að framundan séu mjög mörg krefjandi verkefni aðkallandi sem tengjast gosinu og ekki útséð með hvernig það fari. „En fjárhagsstaða sveitarfélagsins er góð, en það sama á reyndar líka við um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins sem ég er að hætta í,“ segir Ísólfur Gylfi.