Ármann Kr. Ólafsson, oddviti Sjálfstæðismanna í Kópavogi, segir að einsýnt sé að ekki verði myndaður tveggja flokka meirihluti í bæjarfélaginu án aðkomu Sjálfstæðisflokksins. „Ef Sjálfstæðisflokkurinn kemur ekki að bæjarstjórn verður það fjögurra flokka meirihluti," segir hann.
Öll atkvæði hafa verið talin í Kópavogi. Sjálfstæðisflokkurinn fékk fjóra menn, Samfylkingin þrjá, Framsóknarflokkurinn einn, Vinstri-grænir einn, Næstbesti flokkurinn einn og Listi Kópavogsbúa einn.
„Miðað við síðustu skoðanakannanir unnum við, og því er þetta varnarsigur fyrir okkur. Athyglisvert er að minnihlutinn í síðustu bæjarstjórn á engan þátt í að fella meirihlutann, því Samfylkingin tapar manni."
Ármann segir Sjálfstæðisflokkinn í Kópavogi hafa gengið óbundinn til kosninga. Hann útilokar ekki meirihlutasamstarf við Samfylkinguna.