„Það er mikill hugur í okkur framsóknarmönnum því víða um land erum við að ná góðum árangri,“ segir Birkir Jón Jónsson varaformaður Framsóknarflokksins.
Hann segir því þó ekki að leyna að hann hefði viljað sjá flokkinn fá meira fylgi á höfuðborgarsvæðinu, til dæmis í Reykjavík þar sem hann er víðsfjarri því að fá fulltrúa í borgarstjórn skv. þeim tölum sem fyrir liggja.
Birkir bendir á að víða í Norðausturkjördæmi fái Framsóknarflokkurinn ágætt brautargengi,l svo sem í Norðurþingi, Fjallabyggð, Fjarðarbyggð og víðar. Úrslitin á Akureyri séu hins vegar vonbrigði. Í Grindavík vinni flokkurinn stórsigur og í Kópavog haldi hann sjó.
„Endurnýjunin Framsóknarflokksins tekur sinn tíma, það liggur fyrir. Við erum rétt að byrja,“ segir Birkir.