Mætti á margar möppumessur

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út á kosningavöku Besta flokksins þegar Jón Gnarr, leiðtogi flokksins, kom þangað í nótt. Hann byrjaði á að þakka öllum, sem hefðu mætt fyrir sína hönd á „möppumessur" og þakkaði einnig sjálfum sér fyrir að hafa mætt á margar slíkar.

„Ég hef haft það að leiðarljósi alla ævi að reyna að gera eitthvað gott og uppbyggilegt með því sem ég hef verið að gera en aldrei hef ég verið jafn ánægður með neitt sem ég hef gert og Besta flokkinn," sagði Jón.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sem var á kosningavöku flokksins, sagðist vera alsæl yfir því hve margir borgarbúar hefðu þorað að taka áhættu til að breyta hlutunum.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, sagði að kosningarnar hefðu ekki komið sérstaklega vel út fyrir flokkinn. „Ég held að það sé uppi mjög almenn krafa í þjóðfélaginu um gerbreytt vinnubrögð í stjórnmálum," sagði Ögmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert