Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að Samfylkingin muni vinna áfram að sínum verkum í ríkisstjórninni þrátt fyrir skell sem flokkurinn fékk í sveitarstjórnakosningunum í gær.
„Ég held að þessi niðurstaða muni þétta raðir okkar í ríkisstjórninni," sagði Jóhanna í Silfri Egils í dag. Hún viðurkenndi jafnframt, að ákveðnir brestir hefðu verið í samstarfinu í tilteknum málum.
Jóhanna sagði að niðurstaða kosninganna í gær væru krafa krafa fólks um miklar breytingar og skilaboð til stjórnmálamanna um að vera meiri þjónar fólksins. Greinilegt væri að fólk vill taka meiri þátt í stjórnmálastarfinu og það kallaði á stjórnlagaþing og persónukjör. Sagðist Jóhanna taka þessa niðurstöðu mjög alvarlega.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, sagðist trúa því enn að núverandi stjórnarsamstarf væri það besta og traustasta sem völ væri á og enginn bilbugur væri á honum.
Hann sagði að það skipti líka miklu máli fyrir íslenskt samfélag og velferð að það vinnist vel úr úrslitunum í sveitarstjórnarkosningunum í gær, einkum í stærstu sveitarfélögum landsins því þeirra bíði erfið verkefni í samstarfi við ríkið.
„Sameiginlega verðum við öll að reyna að ná þessu saman og það nær út fyrir stjórnmálin. Ég tel til dæmis, að aðilar vinnumarkaðarins verði að hugsa sinn gang einnig. Og við megum ekki missa hlutina í skotgrafir og einhverja vitleysu. Því takist okkur ekki að nota vorið og sumarið til að klára hluti og undirbúa okkur sem best fyrir haustið þegar allir kjarasamningar eru lausir í landinu og mikið ríður á að við reynum í atvinnumálum að komast í eins gott færi og við getum, til að missa ekki atvinnuleysið upp, þá bíð ég ekki í það," sagði Steingrímur.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist vera viss um að stjórnmálaflokkarnir geti endurheimt traust kjósenda. „Þar sem fólk skilar góðu verki nýtur það trausts," sagði Bjarni.