Kjörsókn í Hafnarfirði hefur aldrei verið jafndræm og í kosningunum í gær eða 65 prósent. Nærri lætur að sjötti hver kjósandi í Hafnarfirði hafi skilað auðum seðli í kjörkassann.
Heildarfjöldi greiddra atkvæða í Hafnarfirði var 11.589 en á kjörskrá voru 17.832. Kjörsókn var því 65 prósent.
Auðir seðlar voru 1.578 eða 13,6 prósent af fjölda greiddra atkvæða. Ógildir seðlar voru 106. Hlutfall auðra seðla og ógildra var því 14,5 prósent í heild. Í kosninginum 2006 var hlutfall auðra seðla og ógildra 2,4 prósent yfir landið allt.
„Þetta eru mjög
sérkennilegar tölur sem við höfum ekki séð áður hér í Hafnarfirði," segir Jóna Ósk Guðjónsdóttir formaður yfirkjörstjórnar í Hafnarfirði í samtali við Kosningavef mbl.is
„Ég er búin að vera átta ár í kjörstjórn og var sjálf bæjarfulltrúi og varabæjarfulltrú í tólf ár þannig að ég er búin að fylgjast með kosningum í Hafnarfirði mjög lengi. Svona lítil kosningaþátttaka og þessi gífurlegi fjöldi auðra seðla er eitthvað sem ég hef aldrei séð fyrr," segir Jóna Ósk.
Í Hafnarfirði voru einungis fjórir flokkar í framboði fyrir þessar kosningar. Engin ný framboð komu fram líkt og í nær öllum öðrum af stærri sveitarfélögum landsins.