Þetta var heilmikill skellur

Dagur B. Eggertsson ræðir við Guðrúnu Erlendsdóttur á kosningavöku Samfylkingarinnar …
Dagur B. Eggertsson ræðir við Guðrúnu Erlendsdóttur á kosningavöku Samfylkingarinnar í gærkvöldi. mbl.is/hag

„Við þurfum að horfast í augu við það að þetta er heilmikill skellur," sagði Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, í Silfri Egils í Sjónvarpinu.

Samfylkingin tapaði fylgi í sveitarstjórnakosningunum í gær.  Dagur sagði, að meginkrafan í kosningunum hefði verið um breytingar og hún hefði beinst að Reykjavíkurborg, sem yrði nú að mæta þessari kröfu.

Hann sagði að Besti flokkurinn og önnur framboð hefðu dregið fram þá gríðarlegu vantrú, sem ríkti í garð stjórnmálanna og flokkarnir yrðu að horfast í augu við það.

Egill Helgason, þáttastjórnandi, sagði að eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar hefði Halldór Ásgrímsson sagt af sér formennsku í Framsóknarflokknum vegna slæmrar útkomu flokksins þá. Spurði hann Dag hvort til greina kæmi að hann segði af sér. Dagur svaraði því neitandi og sagði að menn hefðu verið búnir að búa sig undir erfiðar kosningar.  

Sólveig Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, sagði að upp væri komin ný staða sem væri bæði spennandi og ógnvekjandi. Það væri hins vegar óljóst hverju fólk væri að kalla eftir sem segði, að stjórnmálamenn hefðu ef til vill ekki verið í nægilega góðum tengslum við fólkið í borginni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert