Öll vikan fer í viðræðurnar

Jón Gnarr, oddviti Besta flokksins.
Jón Gnarr, oddviti Besta flokksins.

Líklega fer öll vikan í viðræður Besta flokksins og Samfylkingarinnar, um myndun meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, segir að viðræður dagsins hafi verið ágætar.

Fyrir hönd Besta flokksins er það Óttarr Proppé sem er í forsvari í viðræðunum og hefur verið að skipuleggja þær með Degi.

Sett hefur verið niður nokkurs konar stundaskrá fyrir vikuna. „Þetta eru margir málaflokkar sem þarf að fara yfir. Við erum að vanda okkur," segir Dagur.

Aðspurður hvort öll vikan muni fara í þetta segir Dagur: „Já, við höfum ekki sett okkur nein tímamörk í því. Við ætlum okkur að nýta þann tíma sem við höfum. Við erum búin að fara yfir sviðið, gerðum það strax í gær. En svo ætlum við að fara nákvæmar yfir einstaka málaflokka og verkefni næstu dagana."

Jón Gnarr sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að verið væri að kynna flóknar hugmyndir Besta flokksins um stjórnkerfisbreytingar í borginni fyrir Samfylkingunni. ,,Ég held að hugmyndir hópanna séu ekki ólíkar, varðandi stjórnkerfi og valddreifingu og slíkt," segir Dagur. Þær viðræður séu hins vegar svo skammt á veg komnar að ekki sé rétt að lýsa þeim mikið frekar nú.

Kannski verði fundað eitthvað áfram í kvöld og alveg ábyggilega á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert