Samkomulag á Ísafirði

Eiríkur Finnur Greipsson.
Eiríkur Finnur Greipsson. mynd/bb.is

Nýkjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Ísafjarðar skrifuðu nú undir kvöld undir samkomulag um að mynda meirihluta í bæjarstjórninni. Eiríkur Finnur Greipsson, oddviti sjálfstæðismanna, segir stefnt að því að ljúka málefnasamningi snemma í næstu viku.

„Það ríkti góður andi í viðræðunum og fullkomið traust. Auðvitað urðu allir að gefa eitthvað eftir en við hefðum aldrei skrifað undir samning sem við treystum okkur ekki til að mæla með," sagði Eiríkur Finnur.  

Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði þarf að staðfesta samkomulagið og sömuleiðis Framsóknarfélag Ísafjarðarbæjar áður en það tekur gildi. 

Framsóknarflokkurinn gerði kröfu um að auglýst verði eftir bæjarstjóra og að sögn Eiríks Finns varð það niðurstaðan. Þá sagði hann að samkomulag væri um nánast öll efnisatriði í málefnasamningi og einnig lægi í stórum dráttum fyrir samkomulag um skiptingu formennsku í nefndum og ráðum bæjarins. Eiríkur Finnur vildi ekki á þessari stundu upplýsa í hverju það væri fólgið.

Sjálfstæðisflokkurinn hélt 4 bæjarfulltrúum í Ísafjarðarbæ í kosningunum á laugardag og Framsóknarflokkurinn hélt einum fulltrúa. Þessir flokkar mynduðu meirihluta á síðasta kjörtímabili.  

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru  Eiríkur Finnur Greipsson, Gísli H. Halldórsson, Guðfinna M. Hreiðarsdóttir og Kristín Hálfdánsdóttir og  Albertína Elíasdóttir er bæjarfulltrúi Framsóknarflokks. Bæjarfulltrúar  Ísafjarðarlistans eru Sigurður Pétursson, Arna Lára Jónsdóttir, Kristján Andri Guðjónsson og Jóna Benediktsdóttir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert