Einar Skúlason, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík í nýafstöðum borgarstjórnarkosningum, segist hafa heyrt að fólk í trúnaðarstörfum fyrir flokkinn hafi kosið Sjálfstæðisflokkinn.
„Þeir fulltrúar eiga auðvitað að ganga skrefið til fulls og segja af sér öllum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn," segir Einar í pistli á pressunni.is.
Einar segir að gengi framsóknarmanna í borginni hafi verið hörmulegt en flokkurinn náði ekki fulltrúa í borgarstjórn. „Það er bæði persónulegur ósigur minn og flokksins. (...) Það var óþægilegt að finna fyrir því í kosningabaráttunni hversu ímynd Framsóknarflokksins er löskuð í Reykjavík og hve fólk virðist eiga bágt með að trúa því að endurnýjun hafi raunverulega átt sér stað í Framsóknarflokknum. Okkur hefur alls ekki tekist að ná upp trausti meðal kjósenda á þeim sautján mánuðum sem eru liðnir frá flokksþingi, þar sem ný forysta var kjörin," segir Einar og bætir við að kalla þurfi saman miðstjórnarfund í flokknum hið fyrsta.
„Á slíkum miðstjórnarfundi þarf einnig að ræða hugmyndafræði flokksins, skipulag og vinnubrögð innan hans. Endurnýjun hefur vissulega átt sér stað í forystu flokksins en sú endurnýjun þarf að ganga lengra og ekki aðeins felast í nýjum einstaklingum heldur nýjum vinnubrögðum og nýjum hugsunarhætti. Eftir því er kallað," segir Einar