Stefnir í vinstristjórn í Hafnarfirði

mbl.is/hag

Samfylkingin í Hafnarfirði vill reyna að mynda meirihluta með Vinstri-grænum í bæjarstjórn, áður en farið verður að ræða um þjóðstjórnarfyrirkomulag.

Samkvæmt heimildum mbl.is brydduðu Vinstri-grænir upp á þeirri hugmynd, eftir að ljóst varð að kjörsókn var dræm í sveitarfélaginu og að af þeim sem mættu á kjörstað skiluðu um 15% kjósenda auðu. Sjálfstæðismenn voru tilbúnir til að ræða slíkar hugmyndir en fulltrúar Samfylkingarinnar ekki. Þeir litu á samstarf með VG einum sem fyrsta kost og vildu ræða hann fyrst.

„Við tókum mjög vel í þær hugmyndir og ræddum þetta með VG. Svo fór Guðrún Ágústa og ræddi við Samfylkinguna. Eigum við ekki að orða þannig að hugmyndin hafi stoppað eftir það,“ segir Valdimar Svavarsson, oddviti sjálfstæðismanna í Hafnarfirði.

Valdimar segir einnig að dræm kjörsókn, margir auðir seðlar og sú staðreynd að meirihluti Samfylkingarinnar hélt ekki, séu merki um að kjósendur vilji breytingar í Hafnarfirði.

Funda í kvöld

Það eru því Guðmundur Rúnar Árnason og félagar í Samfylkingunni annars vegar og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstri-grænna, hins vegar sem munu hefja meirihlutaviðræður seint í kvöld. Fyrri hluta kvölds verður venjubundinn mánudagsfundur hjá Vinstri-grænum og síðan haldið til viðræðna seinni hluta kvöldsins, ef að líkum lætur.

Guðrún Ágústa segir aðspurð að þjóðstjórnarhugmyndin hafi verið algerlega óformleg þegar hún var borin upp. Ekki væri neitt óeðlilegt að velta fyrir sér slíku stjórnarfyrirkomulagi, sem viðbrögðum við dómi kjósenda. Hún segir kosningaúrslitin eitthvað sem flokkarnir þurfi að taka til sín og skoða hvernig þeir ætli að bregðast við. Margir aðrir möguleikar séu líka í þeirri stöðu, heldur en þjóðstjórn.

Hafna engu en þjóðstjórn er ekki fyrsti kostur

„Við höfnum engum hugmyndum," segir Guðmundur Rúnar Árnason, oddviti Samfylkingarinnar. „Við höfum lagt mikla áherslu á samstarf á síðasta kjörtímabili og kjörtímabilinu þar áður. Árið 2002 buðum við Sjálfstæðisflokknum varaformennsku í öllum ráðum í bænum. Þeir höfnuðu því. Svo buðum við upp á víðtækt samstarf í hruninu 2008 sem VG tóku mikinn þátt í en Sjálfstæðisflokkurinn sá sér ekki fært að gera það," segir hann.

Samfylkingin hafi ekki slegið þjóðstjórnarhugmyndina út af borðinu. „En við vorum ekki tilbúin til að líta á hana sem fyrsta kost.“

Guðrún Ágústa leggur greinilega mikið upp úr því að hlustað verði á kröfuna um breytingar og segir líka aðrar leiðir hægt að fara til að auka samstarfið í bæjarstjórn, án þess að mynda stjórn allra flokka. Hægt sé að bjóða upp á formennsku í nefndum og ráðum fyrir minnihlutann og auka samstarfið á ýmsa lund. Hún muni m.a. leggja áherslu á það í viðræðum við Samfylkinguna.

Lúðvík bæjarstjóraefni

Þegar Guðmundur Rúnar er spurður hvort hann sé bæjarstjóraefni Samfylkingarinnar segir hann að fyrst eigi að ræða málefnin áður en farið sé að tala um embætti og titla. Hann líti ekki svo á að Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri til átta ára, sem ekki náði kjöri á laugardag, sé hættur í stjórnmálunum í Hafnarfirði. „Ég lít þannig á að Lúðvík sé bæjarstjóraefni," segir hann.

Þegar Þau Guðmundur Rúnar og Guðrún Ágústa eru spurð hvað þau muni leggja áherslu á í viðræðum flokkanna nefna þau bæði áframhaldandi aðkomu íbúanna að stjórn bæjarfélagsins. Guðrún Ágústa nefnir hverfaráð og frekar aðrar leiðir en íbúakosningar, Guðmundur nefnir íbúalýðræðið og fleiri leiðir.

Guðmundur segist vilja verja velferðina og að þar eigi vinstriflokkarnir góða samleið. Þá verður áherslan á leiðir til þess að takast á við erfið fjárhagsmál sveitarfélagsins.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, oddviti Vinstri-grænna í Hafnarfirði.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, oddviti Vinstri-grænna í Hafnarfirði. mbl.is
Guðmundur Rúnar Árnason, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.
Guðmundur Rúnar Árnason, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.
Valdimar Svavarsson, oddviti Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði.
Valdimar Svavarsson, oddviti Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka