„Það er í rauninni ekkert í stefnunni. Það var sameiginleg ákvörðun miðstjórnar Besta flokksins að við skyldum reyna þetta fyrst,“ sagði Jón Gnarr, oddviti Besta flokksins, um ástæður þess að ekki skyldi fyrst leitað til Sjálfstæðisflokksins um myndun nýs meirihluta í höfuðborginni.
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar höfðu þá komið saman á leynilegum fundi í gær en það var niðurstaða hans að ræða framhaldið í dag.
Jón kveðst sannfærður um að af myndun meirihluta með Besta flokknum innanborðs verði en framboðið fékk 6 menn og 34,7% atkvæða. Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, sagði í gærkvöldi að viðræðurnar gengju vel.