Undirbúa valdatöku

Glatt var á hjalla á sigurfundi Besta flokksins í gærkvöldi. …
Glatt var á hjalla á sigurfundi Besta flokksins í gærkvöldi. Jón Gnarr fékk þar afhenta teikningu eftir listamanninn Hugleik Dagsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er í rauninni ekkert í stefnunni. Það var sameiginleg ákvörðun miðstjórnar Besta flokksins að við skyldum reyna þetta fyrst,“ sagði Jón Gnarr, oddviti Besta flokksins, um ástæður þess að ekki skyldi fyrst leitað til Sjálfstæðisflokksins um myndun nýs meirihluta í höfuðborginni.

Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar höfðu þá komið saman á leynilegum fundi í gær en það var niðurstaða hans að ræða framhaldið í dag.

Inntur eftir málefnalista Besta flokksins segir Jón Gnarr „her manna“ hafa unnið að honum en hann hafi ekki yfirsýn yfir hann að svo stöddu. Hitt sé ljóst að áherslur verði bæði til vinstri og hægri.

Jón kveðst sannfærður um að af myndun meirihluta með Besta flokknum innanborðs verði en framboðið fékk 6 menn og 34,7% atkvæða. Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, sagði í gærkvöldi að viðræðurnar gengju vel.

„Það er ekki búið að ræða verkaskiptingu þó við höfum farið yfir víðan völl. Ég hef ekki gert neina úrslitakröfu um að ég verði borgarstjóri. Besti flokkurinn hafði samband við okkur og óskaði eftir viðræðum um myndun meirihluta,“ sagði Dagur sem boðar gagngera endurskoðun á flokksstarfi Samfylkingarinnar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert