Einar Skúlason oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík segist ekki sjá ástæðu til þess að taka til sín orð Gunnars Braga Sveinssonar flokksbróður síns um að honum beri að íhuga stöðu sína í kjölfar slæmrar útkomu í kosningunum.
Einar segir stöðuna flóknari en svo og Framsóknarflokkurinn þurfi að ráðast í mun heilstæðari naflaskoðun, ekki þýði að einblína bara á Reykjavík. „Ég ber auðvitað ábyrgð þarna en ekki síður flokkurinn sjálfur og ég kalla eftir því að það sé haldinn miðstjórnarfundur í flokknum því það er ljóst að það fór illa á fleiri stöðum en í Reykjavík og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef fundið fyrir mikilli gagnrýni á framgöngu flokksins og mér finnst nú að Gunnar Bragi eigi bara að hugsa um sitt kjördæmi og láta öðrum um að leysa þau mál sem koma upp í Reykjavík.“
Einar vísar í pistil sem hann skrifaði á Pressuna í gær þar sem hann segir m.a. að óþægilegt hafi verið að finna fyrir því í kosningabaráttunni hversu löskuð ímynd Framsóknarflokksins er í Reykjavík. „Það er náttúrulega augljóst að þrátt fyrir þessa endurnýjun í fyrra þá hafa landsmenn ekki skynjað neina breytingu á Framsóknarflokknum. Við höfum ekki náð að byggja upp þetta traust sem stóð til og það hlýtur að kalla á einhvers konar endurmat á því hvert við erum að fara og hvernig við erum að gera þetta og það snýst ekkert bara um þessar sveitakosningar heldur snýst það um landsmálin líka.“
Þá hafi það verið mikil vonbrigði að heyra að fólk sem er í trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík hafi kosið Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningunum. Þeir fulltrúar eigi auðvitað að ganga skrefið til fulls og segja af sér öllum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.
„Það er ekki nóg að skipta um fólk, við þurfum líka að skipta um aðferðir.“