Harðvítug prófkjörsbarátta skaðaði flokkinn

Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson. mbl.is/RAX

Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, er ekki í vafa um að harðvítug prófkjörsbarátta Einars Skúlasonar og lokaðrar klíku í flokknum á bandi hans hafi skaðað flokkinn í sveitarstjórnakosningunum.

„Þegar menn hiklaust í lokuðu og vitlausu prófkjöri slátra sínum besta manni, þá uppskera þeir með þessum hætti. Óskar (Bergsson) friðaði Reykjavík af miklum átökum sem voru og þeim var að ganga það mjög vel, honum og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

Þetta eru afleiðingarnar af því áfalli að fórna honum, fyrst og fremst. Þetta var aðför að manni í lokuðu prófkjöri sem var varla löglegt, alla vega siðlaust. Ég heyrði um það talað að á 12. stundu hefði klíkan á bandi Einars Skúlasonar komið með 200-300 nöfn og menn áttu engar varnir,“ segir Guðni við Morgunblaðið í dag.

Reykvíkingar létu glepjast af lýðskrumi

Þá segist Guðni harma að kjósendur í borginni skuli hafa látið glepjast af lýðskrumi og „Silvíar Nótt-heilkenni“, þar sem verið sé að hæðast að áhorfandanum án þess að hann átti sig á því.

„Ég hef trú á því að Jón Gnarr sé að búa til heimskvikmynd um það þegar aulinn hertekur heila borg. Ég held að hann sé að leika. Hann er borgarlistamaður og hefur fengið peninga til að gera kvikmynd og hún snýst um það þegar aulinn tekur borg og verður borgarstjóri.

Hann er miklu greindari og snjallari maður en hann birtist í viðtalsþáttum. Honum datt aldrei í hug að hann næði þessum árangri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert