Leynifundir boðaðir næstu daga

Jón Gnarr á fundi með félögum sínum í Besta flokknum …
Jón Gnarr á fundi með félögum sínum í Besta flokknum í gærkvöldi mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á morg­un­fundi odd­vita Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, Dags B. Eggerts­son­ar, og eins af efstu mönn­um af lista Besta flokks­ins, Ótt­arrs Proppé, voru lögð drög að stunda­skrá þeirr­ar vinnu sem framund­an er. Kom­ist var að sam­komu­lagi um að vinn­an færi fram í formi leynifunda.

Næstu daga munu borg­ar­full­trú­ar og fé­lag­ar flokk­ana hitt­ast á röð leynifunda þar sem eft­ir­far­andi mála­flokk­ar verða til um­fjöll­un­ar:

Þriðju­dag­ur 1. júní: Leynifund­ur um at­vinnu­mál, leik­skóla- og mennta­mál, skipu­lags­mál, vel­ferðar­mál, og fjár­mál Reykja­vík­ur­borg­ar.

Miðviku­dag­ur 2. júní: Leynifund­ur um auðlinda- og um­hverf­is­mál, menn­ing­ar­mál, mál Orku­veitu Reykja­vík­ur og annarra fyr­ir­tækja borg­ar­inn­ar, og sam­göngu­mál.

Fimmtu­dag­ur 3. júní: Leynifund­ur um tólfta mála­flokk­inn: Breyt­ing­ar á stjórn­skip­an borg­ar­inn­ar og auk­in áhrif al­menn­ings á stjórn henn­ar. Verka­skipt­ing.

Leynifund­um verður bætt við eft­ir því sem þurfa þykir uns verk­inu er lokið, að því er seg­ir í frétta­til­kynn­ingu frá Besta flokkn­um.

Af þessu til­efni hef­ur verið opnaður vef­ur­inn „Betri Reykja­vík“ þar sem Reyk­vík­ing­um gefst kost­ur á að koma á fram­færi til­lög­um sín­um og hug­mynd­um við þá sem leynifund­ina sitja. Verða umræður á „Betri Reykja­vík“ hafðar til hliðsjón­ar á fund­un­um.

Í ljósi reynsl­unn­ar, og þess að nýtt fólk er að mæta til starfa í borg­ar­stjórn, ætla Besti flokk­ur­inn og Sam­fylk­ing­in að taka góðan tíma í viðræðurn­ar. Þau biðja því fjöl­miðlana um að gefa sér og íbú­um borg­ar­inn­ar næði til þess að setja sam­an trausta mála­skrá um betri Reykja­vík næstu fjög­ur árin," seg­ir enn frem­ur í frétta­til­kynn­ingu.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka