Óskar Bergsson, sem var borgarfulltrúi Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili, segir við Morgunblaðið í dag að margir hafi ekki haft trú á framboði flokksins nú en Einar Skúlason tók við í vor sem oddviti flokksins.
Þá telur Óskar að Einar hafi beitt óeðlilegum aðferðum til að ná oddvitastöðunni en hann hafi þá verið skrifstofustjóri þingflokksins.
„Það er ekki rétt hjá Einari að þetta hafi verið prófkjör. Þetta var kjörfundur þar sem við áttum ekki von á því að það yrði barist um oddvitasætið. Við ákváðum að halda kjörfund þar sem við hleyptum öllum flokksbundnum félagsmönnum að til að raða á listann og undirbúa málefnaskrána fyrir vorið. Við ætluðum að hafa tíma fyrir okkur.
Hans framboð kom í rauninni ekki fram fyrr en kjörskráin var lokuð. Þannig að ég hafði aldrei tök á að safna liði á móti honum. Því var ekki um raunverulegt prófkjör að ræða heldur var þetta kjörfundur sem endaði með allt öðrum hætti en lagt var upp með,“ segir Óskar.