Besti flokkurinn og Samfylking funda nú þriðja daginn í röð um myndun nýs meirihluta í Reykjavíkurborg. Ekki fæst uppgefið hvar „leynifundurinn“ fer fram.
Oddný Sturludóttir sem skipar annað sætið á lista Samfylkingarinnar vill lítið gefa upp um gang viðræðna. „Það gengur bara vel og andrúmsloftið er mjög gott,“ segir hún í samtali við Kosningavef mbl.is.
Auk hennar sitja Dagur B. Eggertsson oddviti og Björk Vilhelmsdóttir, sem skipar þriðja sætið, fundinn. Fyrir Besta flokkinn sitja Jón Gnarr og Óttar Proppé.
Á morgun verður fleira fólk úr báðum flokkum kallað að borðinu að sögn Oddnýjar. Flokkarnir muni gefa sér góðan tíma í viðræðurnar.
The Wire afhent á leynifundi
Á fésbókarsíðum Besta flokksins og Samfylkingarinnar í Reykjavík eru einu fréttirnar af viðræðunum í dag þær að Jón Gnarr hafi afhent Degi mynddisk með þáttunum The Wire, en Besti flokkurinn hafði lýst því yfir í kosningabaráttunni að það væri ófrávíkjanleg krafa að samstarfsfólk flokksins hefði horft á þættina. Þættirnir fjalla um undirheima Baltimore borgar í Bandaríkjunum.
Hvorki Dagur B. Eggertsson né Jón Gnarr hafa gefið kost á viðtölum við mbl.is í dag.
Samkvæmt leynifundadagskrá sem þegar hefur verið lögð fram á meðal annars að ræða verkaskiptingu á fundi morgundagsins. Auðlindamál og Orkuveitan voru hins vegar til umfjöllunar í dag samkvæmt dagskránni.
Að sögn Heiðu Kristínar Helgadóttur kosningastjóra Besta flokksins halda flokkarnir sig við áður boðaða leynifundadagskrá. „Það eru allir glaðir og þetta gengur bara vel," sagði Heiða í samtali við mbl.is.
Fagnaðarefni hve margar hugmyndir borgarbúar leggja fram
Borgarbúum hefur síðustu daga gefist kostur á að leggja sínar hugmyndir inn í viðræðurnar í gegnum vefinn Betri Reykjavík. Alls hafa 2.284 hugmyndir hafa spunnist útfrá þeim 388 málum sem lögð hafa verið fram á vefnum.
„Það er mikið fagnaðarefni hversu margir Reykvíkingar eru búnir að segja skoðun sína á málefnum Reykjavíkur. Þetta er liður í áherslum beggja flokka um aukin áhrif íbúanna,“ segir Oddný.