Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri Akureyrar og oddviti Samfylkingar í bænum, ætlar að taka sæti í bæjarstjórn eins og hann var kjörinn til, þrátt fyrir að flokkurinn hafi misst mikið fylgi í nýafstöðnum kosningum. „Ég er búinn að ræða við mitt fólk og tel að ég njóti þess trausts,“ segir Hermann í samtali við mbl.is
Aðspurður hvort hann hafi fundið fyrir óánægju innan Samfylkingarinnar á Akureyri með gengi flokksins og störf oddvitans, segir Hermann: „Að sjálfsögðu er óánægja með gengið og eðlilega velta menn því fyrir sér hver séu rétt viðbrögð við því. Ég sagði það strax að ég þyrfti að taka mér tíma til að meta það. Nú hef ég gert það og þetta er niðurstaðan.“
Vill rífa upp fylgi flokksins
Hann segist vera þess fullvíss að hægt sé að rífa aftur upp fylgi Samfylkingarinnar á Akureyri. „Það voru mjög sérstakar aðstæður sem kannski sköpuðu að einhverju leyti þessa niðurstöðu. En við teljum okkur hafa bæði málstað og fólk sem á meira erindi en þetta.“
Flokkurinn fékk einn mann kjörinn í bæjarstjórn í nýafstöðnum sveitarstjórnakosningum, en hafði þrjá menn fyrir og var í meirihlutasamstarfi með Sjálfstæðisflokknum. L-listi fólksins fékk hreinan meirihluta í kosningunum.
„Stríðið heldur áfram“
Hermann hefur sent samflokksmönnum sínum á Akureyri eftirfarandi tilkynningu:
„Á undanförnum árum hef ég notið trausts félaga minna í Samfylkingunni á Akureyri til þess að fara fyrir lista flokksins í sveitarstjórnarkosningum. Til þess var ég valinn í lokuðu prófkjöri fyrir kosningarnar 2006 og í opnu prófkjöri sem fram fór í byrjun þessa árs. Í því prófkjöri sóttist enginn annar eftir oddvitasætinu. Ég er þakklátur fyrir þetta traust og hef lagt á mig mikla vinnu fyrir flokkinn minn til að reyna að endurgjalda það.
Samfylkingin á Akureyri fékk ekki brautargengi í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum og fylgið að þeim loknum er langt í frá ásættanlegt. Á því eru ýmsar skýringar en sem oddviti listans í kosningunum ber ég að sjálfsögðu mikla ábyrgð á þessum árangri. Hana mun ég axla með því að vinna með félögum mínum í Samfylkingunni að því starfi sem framundan er og halda þannig trúnað við stuðningsmenn Samfylkingarinnar sem veittu mér umboð til starfa.
Orustan tapaðist en stríðið heldur áfram. Framundan er mikið uppbyggingarstarf og ég tel mig geta lagt mikið að mörkum til þess auk þess sem ég hef góðar forsendur til þess að halda uppi öflugu aðhaldi gagnvart nýjum meirihluta og vekja athygli á málstað og hugmyndum Samfylkingarinnar. Mér finnst ekki rétt að hlaupast undan merkjum við þessar aðstæður og mun því starfa ótrauður áfram að því verkefni sem mér var falið. Félagsmenn Samfylkingarinnar munu síðan fá sitt lýðræðislega tækifæri til að velja þann oddvita sem þeir telja heppilegt að leiði hópinn þegar nær dregur næstu kosningum.