Meirihlutaviðræður í Kópavog ganga vel og er vonast til að niðurstaða fáist á næstu dögum, segir Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingar. „Það var fundað stíft í gær og verður fundað stíft í dag,“ segir hún.
Aðspurð segir hún engan málefnaágreining vera á milli flokkanna, Samfylkingu, VG, Lista Kópavogsbúa og Næst besta flokksins, sem hófu meirihlutaviðræður eftir að niðurstöður kosninga í Kópavogi urður ljósar. „Það liggur fyrir að málefnalega hugsum við svipað.“
Svo virtist sem ágreiningur hefði komið upp í fyrradag um hver skyldi verða bæjarstjóri, en Listi Kópavogsbúa vill að ráðinn verði ópólitískur bæjarstjóri. Eftir að greint var um á málið, m.a. í fjölmiðlum, sendu flokkarnir fjórir þó frá sér tilkynningu þar sem segir að þeir standi sameiginlega að meirihlutaviðræðum.
Aðspurð hvort búið sé að ganga frá málefni bæjarstjóra, segir Guðríður: „Það er verið að taka margar ákvarðanir í einu og þetta hangir allt saman. [...] Við ætlum að reyna að klára þetta og kannski upplýsa sem minnst um stöðuna fyrr en þetta liggur allt fyrir.“