Fréttaskýring: Almannagjá Framsóknar

Sigmundur Davíð var nýkjörinn formaður er Framsókn skýrði frá því …
Sigmundur Davíð var nýkjörinn formaður er Framsókn skýrði frá því að hún myndi verja minnihlutastjórn Samfylkingar og VG. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hljóðið í framsóknarmönnum á landsbyggðinni og í Reykjavík er gerólíkt. Framsóknarmenn úti á landi eru almennt ánægðir með útkomu sveitarstjórnarkosninganna og telja forystuna á réttri leið.

Annað hljóð er í strokknum í Reykjavík þar sem frjálslyndir framsóknarmenn telja sig hafa fjarlægst flokkinn í formannstíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Á milli þessara fylkinga er breið gjá og þótti Sigmundur Davíð leggja hlutverk brúarsmiðs til hliðar er hann gaf Guðmundi Steingrímssyni þá einkunn að þar færi ósvífinn gjörningamaður, eftir að hann leiddi opinberlega líkur að því að forystan hefði átt þátt í afhroði flokksins í höfuðborginni.

Hefur Guðmundur ekki greint afdráttarlaust frá því hvernig hann sjái framtíð sína í flokknum.

Höfuðvígið laskað

Skiptingin á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins er þó ekki svo svarthvít. Akureyri hefur löngum verið álitið höfuðvígi Framsóknar og er skammt síðan hún átti 5 menn í bæjarstjórn. Sú vígstaða hefur gerbreyst og verður flokkurinn nú að gera sér að góðu að hafa einn mann í bæjarstjórn.

Vandinn er því ekki bundinn við mölina. Óánægjan leynist víðar.

Tekið skal fram að hugtakið frjálslyndur er óljóst í samhengi Framsóknar en það þykir þó sameina þann arm að þar er áhugi á Evrópumálum meiri en hjá landsbyggðararminum sem er kaldur gagnvart Evrópusambandsaðild. Sáttin í ályktun síðasta landsfundar um aðild er fokin út í veður og vind.

„Sundurlaus her“ í borginni

Skæðadrífan á milli andstæðra fylkinga í Reykjavík hefur ekki farið leynt eftir afhroðið um síðustu helgi og orðaði einn heimildarmaður blaðsins það svo að í höfuðstaðnum væri flokkurinn „sundurlaus her“.

Annar framsóknarmaðurinn sagði gjána ekki koma á óvart enda hefði flokkurinn skipst í klíkur í borginni í rúma hálfa öld.

Reykjavík er sem kunnugt er langstærsta sveitarfélagið og því eðli málsins samkvæmt meiri líkur á flokkadráttum þar en í miklu minni bæjarfélögum, á borð við Höfn í Hornafirði, þar sem varaformaðurinn, Birkir Jón Jónsson, telur flokkinn hafa unnið góðan sigur.

Framsóknarmenn rekja góða útkomu á landsbyggðinni í sveitarstjórnarkosningunum ekki síst til þess að þar séu frambjóðendurnir í persónulegu sambandi við kjósendur og áhrifamáttur fjölmiðla þar því minni en á höfuðborgarsvæðinu.

Styrkur og veikleiki í senn

Segja má að í þessu liggi í senn veikleiki og styrkur Framsóknar. Flokkurinn er elsta stjórnmálaafl landsins sem státar af djúpum rótum á landsbyggðinni. Hann skortir hins vegar vinsælan og óumdeildan leiðtoga á landsvísu sem höfðar til breiðari hóps.

Á sama tíma og einurð Sigmundar Davíðs í málum á borð við Icesave-deiluna hefur víða mælst vel fyrir eru aðrir flokksmenn á því að formaðurinn hafi fengið á sig ímynd átakasækins leiðtoga og þar með fælt frá kjósendur í borginni.

Þetta er sett í samhengi við þá útbreiddu skoðun að Sigmundi Davíð hafi ekki tekist að koma þeim skilaboðum til skila að flokkurinn hafi gengið í gegnum meiri endurnýjun en aðrir flokkar og tekið upp ný vinnubrögð. Því hafi flokkurinn ekki endurheimt traust.

Böndin berast einnig að Einari Skúlasyni, oddvita flokksins í borginni, en andstæðingar hans jafnt sem samherjar eru sammála um að þar fari ekki afgerandi leiðtogi.

Þá þykir brýnt að taka flokksstarfið til gagngerrar endurskoðunar, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, og færa almenna flokksmenn nær ákvarðanatöku.

Verði einn en ekki tveir flokkar

Ljóst þykir að með brotthvarfi Halldórs Ásgrímssonar og Jóns Sigurðssonar hafi Framsókn fært sig að landsbyggðarhliðinni, eða tekið sér stöðu við „Skagafjarðarlínuna“ eins og það er orðað.

Sú staða hafi styrkst í sessi með tilkomu Guðna Ágústssonar í embætti formanns enda hafi hann síður höfðað til fólks á höfuðborgarsvæðinu en til sveita.

Valgerður Sverrisdóttir tók sem kunnugt er við af Guðna í formannsembættinu en Sigmundur Davíð telur einsýnt að Framsókn eigi ekki að reyna að „vera öðruvísi í Reykjavík en á landsbyggðinni“.

Kveðst formaðurinn líta svo á að slík miðjustefna eigi sér hljómgrunn en ummælin verður að túlka sem sneið til Einars Skúlasonar og fylgismanna hans.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert