Geir Kristinn Aðalsteinsson, oddviti Lista fólksins, var rétt í þessu kjörinn forseti nýrrar bæjarstjórnar Akureyri. Hann er einn átta nýliða í bæjarstjórn, þar sem sitja ellefu fulltrúar. L-listinn hefur sex fulltrúa og er fyrsta stjórnmálaaflið sem nær hreinum meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar.
Oddur Helgi Halldórsson, stofnandi L-listans og bæjarfullrúi hans frá upphafi - síðustu þrjú kjörtímabil - er nýr formaður bæjarráðs Akureyrar.
Nýr varaformaður bæjarráðs er Geir Kristinn Aðalsteinsson og þriðji fulltrúi L-listans í bæjarráði er Halla Björk Reynisdóttir. Í ráðinu sitja einnig Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Framsóknarflokki og Ólafur Jónsson, Sjálfstæðisflokki. Áheyrnarfulltrúar eru Sigurður Guðmundsson bæjarfulltrúi Bæjarlistans, Hermann Jón Tómasson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs.
Í upphafi fundar var lesið upp bréf frá Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, sem kjörin var í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þar sem hún baðst lausnar út kjörtímabilið af persónulegum ástæðum. Var beiðni hennar samþykkt með ellefu samhljóða atkvæðum.