Dr. Gunni verður ekki stjórnarformaður Strætó þar sem aðeins borgarfulltrúar mega taka starfið að sér. Þetta ritar dr. Gunni á vef sinn og segir að Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins verði væntanlega formaður stjórnar Strætó. Dr. Gunni var þann 15. júní sl. kjörinn formaður Strætó en þar sem hann er varaborgarfulltrúi þá brýtur það gegn lögum Strætó.
„Ha, nei nei, ég er ekkert sár og svekktur - hvað þá bitur og með laskaða sjálfsmynd!," skrifar dr. Gunni um embættismissinn.
Samkvæmt samþykktum byggðasamlagsins Strætó bs. verða þeir sem sitja í stjórn félagsins að vera aðalmenn sveitarstjórn eða framkvæmdastjóri viðkomandi sveitarfélags.
Dr. Gunni var á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar kosinn í stjórn Strætó fyrir hönd Reykjavíkurborgar, en í stjórninni sitja fulltrúar frá borginni, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Seltjarnarnesi og Álftanesi. Sveitarfélögin skiptast á að fara með formennsku í stjórninni, en núna er fulltrúi Reykjavíkur formaður.