Stjórnin óttast kosningar

Farið með kjörkassana úr Ráðhúsi Reykjavíkur í síðustu sveitarstjórnarkosningum.
Farið með kjörkassana úr Ráðhúsi Reykjavíkur í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Ómar Óskarsson

„Ég held að borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík hafi sýnt stjórninni að nýjar kosningar geti verið mjög vandasamt og áhættusamt fyrirtæki. Það getur allt gerst,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, um ríkisstjórnarsamstarfið.

„Þess vegna held ég að það sé mikill vilji í stjórninni til að vinna saman,“ segir Gunnar Helgi.

Hann telur ólíka afstöðu ríkisstjórnarflokkanna til starfshátta í ríkistjórn eiga þátt í þeim opna ágreiningi sem sé á milli VG og Samfylkingar í lykilmálum.

„Þrátt fyrir þennan vilja hefur stjórnin ekki fundið sér aðferðir til að vinna saman sem eru sannfærandi út á við. Það er aldrei almennilega ljóst hvort stjórnarstefnan hefur meirihluta í þessu málinu eða hinu eða hvort að einhverjir einstakir þingmenn geti stillt stjórninni upp við vegg og svo framvegis. Þannig að það er töluverður pirringur innanborðs á báða bóga út af því að stjórnin hefur ekki sameiginlegan skilning á því hvernig hún starfar.“

Vandamál Vinstri grænna

- Hvað skýrir þetta?

„Þessir flokkar eru náttúrulega ekki eins. Þeir koma í gegnum hrunið með sameiginlega afstöðu í ákveðnum málum. Á hinn bóginn eru þeir mjög ósammála varðandi aðra hluti og þar á meðal um það hvernig ríkisstjórnir vinni.

Og í Vinstri grænum sérstaklega eru hugmyndir um það hvernig eigi að vinna í ríkisstjórn sem eru töluvert frábrugðnar því sem gerist í hinum íslensku flokkunum, nema ef til vill Hreyfingunni. Þetta er vandamál Vinstri grænna í þessu ríkisstjórnarsamstarfi og væri það hugsanlega í öllu ríkisstjórnarsamstarfi sem þeir væru í.“

Engin merki um breytingar

- Sérðu einhver teikn á lofti um að breyting verði þar á á næstunni?

„Nei. Það eru engin sérstök merki um það, ekki sem ég hef séð.

Það stendur fyrir dyrum að endurskoða starfshætti ríkisstjórnarinnar, lögin um stjórnarráðið og svo framvegis. Hvað kemur út úr þeirri vinnu veit enginn.“

- Telurðu að þessi staða verði því uppi um ókominn tíma?

„Hún er allavega ekki um það bil að leysast á einfaldan eða skjótan hátt,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson prófessor.

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor.
Gunnar Helgi Kristinsson prófessor. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert