Á fundi bæjarstjórnar Grindavíkur í dag var samþykkt samhljóða að ráða Róbert Ragnarsson sem bæjarstjóra. Róbert hefur undanfarin 4 ár verið bæjarstjóri í Vogum en áður hafði hann starfað sem verkefnisstjóri í félagsmálaráðuneytinu og verið ferðamála- og markaðsfulltrúi Grindavíkur.
Í tilkynningu frá bæjarstjórninni segir, að ráðningarsamningurinn sé mjög hagstæður fyrir bæjarfélagið og hafi verið komið til móts við þá gagnrýni er kom fram gagnvart ráðningarsamningum bæjarstjóra á síðasta kjörtímabili. Róbert mun mæta til starfa miðvikudaginn 4. ágúst.
Alls sóttu 55 um starf bæjarstjóra í Grindavík en 5 drógu umsókn sína til baka þegar ljóst var að nöfn umsækjenda yrðu birt. Capacent hafði umsjón með ráðningarferlinu. Fyrirtækið valdi úr þeim hópi fimm einstaklingana og voru þeir boðaðir í viðtöl til Grindavíkur. Í framhaldinu voru viðræður teknar upp við Róbert.
Í tilkynningunni segir, að meirihluti og minnihluti í bæjarstjórn hafi unnið vel saman í þessu ferli og það sé fagnaðarefni að ráðning bæjarstjóra var samþykkt samhljóða í dag.
Róbert Ragnarsson er 34 ára gamall stjórnmálafræðingur, kvæntur Valgerði Ágústsdóttur og eiga þau 3 syni.