Landið eitt kjördæmi í kosningum til stjórnlagaþings

Frá þjóðfundi sem haldinn var á síðasta ári.
Frá þjóðfundi sem haldinn var á síðasta ári.

Landið verður eitt kjör­dæmi og vægi at­kvæða verður því jafnt þegar kosið verður til stjórn­lagaþings 27. nóv­em­ber.  Verða at­kvæði af land­inu öllu tal­in í Reykja­vík á veg­um lands­kjör­stjórn­ar og úr­slit birt fyr­ir landið í heild, ekki eft­ir kjör­dæm­um.

Stjórn­lagaþing skal skipað minnst 25 og mest 31 þjóðkjörn­um og per­sónu­kjörn­um full­trúa.  Fram­boðsfrest­ur renn­ur út 18. októ­ber og fyr­ir 3. nóv­em­ber upp­lýs­ir lands­kjör­stjórn hverj­ir bjóða sig fram til stjórn­lagaþings. 10. nóv­em­ber hefst at­kvæðagreiðsla utan kjör­fund­ar. 

Fram­boði til stjórn­lagaþings skal skilað á sér­stök­um eyðublöðum, sem lands­kjör­stjórn hef­ur út­búið í sam­ráði við dóms­mála- og mann­rétt­indaráðuneytið. Gögn vegna fram­boðs skulu hafa borist lands­kjör­stjórn eigi síðar en kl. 12 á há­degi 18. októ­ber 2010.

Fram­boði skal fylgja listi með nöfn­um minnst 30 og mest 50 meðmæl­enda, sem full­nægja skil­yrðum kosn­ing­ar­rétt­ar til Alþing­is, og skrif­leg yf­ir­lýs­ing frá hverj­um meðmæl­anda, staðfest af tveim­ur vott­um. Hverj­um kosn­ing­ar­bær­um manni er ein­ung­is heim­ilt að mæla með ein­um fram­bjóðanda.

Kostnaður hvers fram­bjóðanda vegna kosn­inga­bar­áttu má að há­marki nema 2 millj­ón­um króna.

Til­kynn­ing dóms- og mann­rétt­indaráðuneyt­is­ins

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert