Býður sig fram til stjórnlagaþings

Bergvin Oddsson.
Bergvin Oddsson.

Bergvin Oddsson, 24 ára Vestmannaeyingur sem búsettur er á Akureyri, býður sig fram til stjórnlagaþings sem kosið verður til 27. nóvember næstkomandi. Hann gefur gefur kost á sér í 2. - 5. sæti.

Bergvin hefur áhuga á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, að því er fram kemur í tilkynningu um framboð hans. Hann er blindur og þekkir vel til málaflokksins, bæði af eigin reynslu og vegna starfa sinna hjá Blindrafélaginu og Félagi langveikra ungmenna.

Bergvin vill að mannréttindakaflinn verði fyrsti kaflinn í nýju stjórnarskránni.

Einnig ætlar Bergvin að beita sér fyrir því að ráðherraábyrgð verði lengd úr þremur árum í átta. Að auki vill hann beita sér fyrir því að Ísland verði eitt kjördæmi.

Bergvin telur vel koma til greina að leggja niður embætti forseta Íslands.

Hver er Bergvin Oddsson

Bergvin Oddsson er fæddur í Vestmanneyjum á árinu 1986. Þar sleit hann barnsskónum en fluttist í höfuðborgina og hóf nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð haustið 2002. Þaðan lauk hann stúdentsprófi vorið 2008.

Hann var í forsvari fyrir ungmennadeild Blindrafélagsins á árum áður, ásamt því að sitja í stjórn Blindrafélagsins. Á menntaskólaárunum vann Bergvin fyrir sér með því að þeytast um landið og skemmta Íslendingum til sjávar og sveita, með sínum svarta blindrahúmor. Hann rak vínheildsölu um tíma.

Bergvin hefur gefið frá sér tvær bækur, önnur þeirra er unglingaskáldsaga og hin er reynslusaga hans af því að eiga von á barni og bera ábyrgð á ósjálfbjarga einstaklingi.

Bergvin hefur verið virkur í flokkstarfi Samfylkingarinnar, verið í flokkstjórn og framkvæmdarstjórn á síðastliðnum árum.

Bergvin er í sambúð með Fanný Rósu Bjarnadóttur hjúkrunarfræðinema, og eiga þau soninn Odd Bjarna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert