Íris Erlingsdóttir, fjölmiðlafræðingur, fyrrverandi fréttamaður á Stöð 2 og fv. ritstjóri Gestgjafans, hefur boðið sig fram til stjórnlagaþings.
Íris hefur undanfarin ár skrifað um land og þjóð fyrir íslenska og bandaríska fjölmiðla, þ.á.m. vefmiðilinn Huffington Post og Minneapolis Star Tribune.
„Ég tel ein veigamestu verkefni þingsins vera
að setja skýrar reglur um sjálfstæði Alþingis og ótvíræð eftirlitsúrræði þess
gagnvart framkvæmdavaldinu, sem og að setja afdráttarlausar reglur um ábyrgð
valdhafanna. Því er mikilvægt að fulltrúar stjórnlagaþings tengist hvorki því
pólitíska né peningalega hagsmunapoti sem grafið hefur undan trausti
þjóðarinnar á mikilvægustu stofnunum lýðveldisins.
Stjórnarskráin verður einnig að geyma afdráttarlaus ákvæði um þjóðareign og þjóðhagkvæma nýtingu náttúruauðlinda, vernd tjáningarfrelsis og afnám hafta þess úr refsilöggjöf. Í tengslum við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar verður ennfremur að eiga sér stað alvarleg umræða um þá grófu, ábyrgðarlausu og á tíðum glæpsamlegu misnotkun á hlutafélagaforminu sem valdið hefur þjóðfélaginu ómældu tjóni meðan fjárglæframennirnir hlæja alla leiðina til Tortola,“ segir hún í tilkynningu.