Blindrafélagið sendi nýverið formanni landskjörstjórnar erindi þar sem minnt var á að huga þyrfti að því að kjörgögn vegna kosningar til stjórnlagaþings verði með þeim hætti að blindir og sjónskertir geti kosið með eðlilegum hætti. Félagið fékk staðfestingu á því að gengið verði í málið.
Fréttavefur Morgunblaðsins, mbl.is, greindi frá því fyrr í kvöld að fyrrverandi framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands hefði af því áhyggjur að ráðstafanir yrðu ekki gerðar fyrir blinda og sjónskerta. Vísaði hann þar í lög um stjórnalagaþing þar sem ekkert kemur fram um slíkar ráðstafanir.
Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélags Íslands, segir ráðstafanir vegna kosninga hér á landi í föstum skorðum til að tryggja aðgang blindra og sjónskertra. Þar sem kosningar til stjórnlagaþing eru hins vegar svo frábrugðnar öðrum kosningum hafi þótt rétt að vekja sérstaklega athygli á réttindum fatlaðra til að tryggja að kjörgögn yrðu útbúin á fullnægjandi hátt.
Kristinn segist ekki hafa fengið upplýsingar um það hjá Ástráði Haraldssyni, formanni landskjörstjórnar, hvernig kjörgögnin yrðu útbúin en segir að í erindi Blindrafélagsins hafi verið bent á að hægt væri að nýta sér leiðsögn Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar blindra, sjónskertra og daufblindra. Hann segist ekki efast um að þetta verði tryggt en félagið komi þó til með að fylgjast með því.