Fréttaskýring: Flóknar kosningar til stjórnlagaþings

Það má búast við að hver og einn verði lengi …
Það má búast við að hver og einn verði lengi í kjörklefanum mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Undanfarna daga hafa ýmsir bent á að framkvæmd kosninganna til stjórnlagaþings sem fram fara hinn 27. nóvember sé ruglingsleg fyrir kjósendur. Frambjóðendur til stjórnlagaþingsins eru í kringum fimm hundruð og geta kjósendur valið tuttugu og fimm úr þeirra hópi.

Frambjóðendum verður úthlutað fjögurra stafa númeri af handahófi sem kjósendur skrifa á kjörseðilinn í stað nafna. Erfitt gæti reynst fyrir fólk að kynna sér slíkan fjölda frambjóðenda og koma vilja sínum skýrt á framfæri í kjörklefanum.

Ástráður Haraldsson, formaður landskjörstjórnar, segir ljóst að framkvæmd kosninganna verði ekki einföld. „Það er ekki einföld framkvæmd að velja 25 menn úr 500 manna hópi,“ segir Ástráður. Hann segir fólk þó geta undirbúið sig áður en það mætir á kjörstað.

„Fólki verður gert kleift að hafa með sér gögn í kjörklefann. Það verður sett upp sérstök vél á netinu þar sem það getur undirbúið sig. Þar getur fólk valið frambjóðendur og raðað þeim upp að vild og fær þá númerin í réttri röð. Það blað getur fólk svo prentað út, haft með sér í kjörklefann og fyllt út kjörseðilinn eftir því,“ segir hann.

Viðbúið er að kosningarnar taki meiri tíma en venjulega enda kostirnir á kjörseðlinum mun fleiri en venjulega. Ástráður segir ómögulegt að segja hvort raðir muni myndast en reynt verði að undirbúa kosningarnar eins vel og hægt er til að framkvæmd þeirra verði sem best úr garði gerð.

Pólitískt flókin kosning

Kosningarnar til stjórnlagaþings eru bæði flóknar fyrir kjósendur og út frá pólitísku sjónarmiði segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Hann segir persónukjör með slíkum fjölda frambjóðenda og sæta ekki eiga sér neina hliðstæðu í heiminum svo hann viti til. Yfirleitt sé persónukjör talið helst henta þar sem fjöldi sæta og framboða sé takmarkaður. „Sumir munu væntanlega mikla það fyrir sér að skrifa niður númer frambjóðenda heima hjá sér og svo aftur í kjörklefanum, sérstaklega ef þeir vilja velja tuttugu og fimm tölur,“ segir hann.

Gunnar Helgi segir enga von til þess að kjósendur geti á málefnalegan hátt gert upp á milli fimm hundruð frambjóðenda. Því sé vel mögulegt að fólk mæti og kjósi aðeins einn eða tvo frambjóðendur eða mæti alls ekki á kjörstað. Það þýði hins vegar það að atkvæði þeirra sem kjósa aðeins einn frambjóðanda falli í raun dauð niður fái sá frambjóðandi ríflega þann fjölda atkvæða sem til þarf til að ná kjöri.

Fá atkvæði dugi til kjörs

Verulegar líkur eru á því að töluverður fjöldi frambjóðenda verði kjörinn á þingið með mjög fáum atkvæðum að sögn Gunnars Helga. Ef atkvæði dreifist verulega á milli þessa mikla fjölda frambjóðenda bjóði kerfið upp á slíkt. „Maður getur ímyndað sér að töluverður fjöldi kjósenda kjósi sömu tíu frambjóðendurna. Þá gætu aðrir frambjóðendur komist inn á afar fáum atkvæðum. Þetta er mjög óvenjulegt fyrirkomulag,“ segir Gunnar Helgi.

Bil leiða til ógildingar

Kjósendur geta greitt tuttugu og fimm frambjóðendum atkvæði sitt á kjörseðlinum í kosningunum til stjórnlagaþings. Þá er best að fara vel yfir seðilinn áður en honum er skilað því að ef vallína er skilin eftir auð á seðlinum er aðeins tekið tillit til útfyllingar fram að auðu línunni. Hið sama á við ef sama númer frambjóðanda er skrifað oftar en einu sinni á kjörseðilinn. Þannig verður kjörseðillinn í heild sinni ógildur ef fyrsta vallínan er skilin eftir auð.

Ástráður Haraldsson, formaður landskjörstjórnar, segist ekki hafa miklar áhyggjur af því að þetta fyrirkomulag vefjist fyrir fólki. Vallínurnar séu allar í röð og því ætti að vera auðvelt að sjá hvort einhver þeirra sé auð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert