523 í framboði til stjórnlagaþings

mbl.is/Kristinn

Landskjörstjórn bárust alls 526 gild framboð til stjórnlagaþings. Á fundi landskjörstjórnar í dag lá jafnframt fyrir að þrír einstaklingar höfðu afturkallað framboð sín. Ekki kom til þess að úrskurða þyrfti um gildi einstakra framboða, að því er fram kemur í tilkynningu.

Fram kemur að alls verði því 523 einstaklingar í framboði til stjórnlagaþings, en kosningar til þess fari fram 27. nóvember nk.

Frambjóðendur skiptast þannig að konur eru 159 en karlar 364.

Þá segir að landskjörstjórn muni innan tíðar birta frekari upplýsingar um frambjóðendur, þ. á m. um skiptingu þeirra eftir kjördæmum og aldursbilum.

Jafnframt vinnur landskjörstjórn að gerð lista yfir frambjóðendur, þar sem fram koma upplýsingar um nöfn þeirra, auðkennistölu hvers og eins, starfsheiti eða stöðu, ásamt upplýsingum um það sveitarfélag þar sem frambjóðendur eru búsettir.

Listinn verður birtur ásamt rafrænni kynningu á frambjóðendum eins fljótt og auðið er á vefnum kosning.is.

Samkvæmt lögum um stjórnlagaþing skal landskjörstjórn auglýsa lista yfir frambjóðendur á vefsíðum landskjörstjórnar og dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins hinn 3. nóvember nk.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka