Frambjóðendur kynntir á vefnum

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur nú opnað vefsvæði með kynningu á frambjóðendum til stjórnlagaþings á vefnum kosning.is. Þar er líka að finna hjálparkjörseðil þar sem kjósendur geta raðað þeim frambjóðendum sem þeir hafa áhuga á að kjósa, prentað seðilinn út og tekið með sér á kjörstað.

Unnið er að gerð prentaðs kynningarefnis sem sent verður á hvert heimili í landinu þriðjudaginn 16. nóvember nk. og kynningarkjörseðils sem sendur verður öllum kjósendum sama dag.

Frambjóðendur sjálfir eru höfundar þess kynningartexta sem birtur er á vefnum kosning.is. Kynningarefnið hefur verið yfirlesið og lagfært með tilliti til málfars og stafsetningar.

Á sérsíðu um hvern frambjóðanda kemur fram í samandregnu máli af hverju viðkomandi býður sig fram, birtar eru upplýsingar um menntun, starfsreynslu, aldur, netfang og vefsíður sem vísa á frekara kynningarefni, hafi frambjóðendur kosið að láta það fylgja framboði sínu. Þá kemur fram fjögurra tölustafa auðkennistala sem hverjum frambjóðanda var úthlutað af landskjörstjórn og færa þarf á kjörseðil á kjördag í stað nafns.

Gild framboð voru upphaflega 526 talsins. Síðan hafa fjórir frambjóðendur afturkallað framboð sín.  Alls verða því 522 frambjóðendur í kjöri til stjórnlagaþings. Á vefnum kosning.is er leitarvél þar sem hægt er kalla fram upplýsingar um frambjóðendur eftir stafrófsröð, starfsheiti, póstnúmeri, sveitarfélagi eða kyni. 

Vefurinn kosning.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka