Heimdallur telur stjórnlagaþing skrípaleik

Hlynur Jónsson og Magnús Júlíusson stjórnarmenn í Heimdalli
Hlynur Jónsson og Magnús Júlíusson stjórnarmenn í Heimdalli

Heimdallur hefur sent frá sér tilkynningu þar sem samtökin segja að fyrirhugað stjórnlagaþing sé skrípaleikur.

„Hin lánlitla og vondaufa vinstristjórn sem nú situr að völdum hefur einstakt lag á að halda athygli fjölmiðlanna frá því hversu hörmulega henni tekst til við landsstjórnina. Vinstristjórnin er föst í fortíðinni og skortir alla framtíðarsýn. Nýjasta aðferðin til að dreifa athyglinni frá óhæfuverkum stjórnarinnar, er að efna til svokallaðs stjórnlagaþings.

Það er engu líkara en stjórnarþingmenn hafi ekki minnstu hugmynd um hvað stjórnarskrá er og hvers vegna henni er ekki breytt með einu pennastriki. Stjórnlög er æðri öðrum lögum og eiga að vera hafin yfir dægurþras. Þau eiga umfram allt að vera einföld og skýr grundvallaratriði.

Á umliðnum vikum hafa sprottið upp alls kyns spekingar sem ekki skilja eðli stjórnlaga og vilja finna alls kyns sérhagsmunum sínum stað í stjórnarskrá – sérhagsmunum sem í langflestum tilfellum fela í sér aukin ríkisútgjöld.

Sjálfsagt mætti endurskoða sitthvað í stjórnarskránni, en það er nákvæmlega ekkert varðandi hrun bankanna eða efnahagsástandið sem kallar á breytingar á stjórnarskránni. Á tímum stórfellds niðurskurðar, meðal annars til þeirra sem minnst mega sín, er hrein og klár móðgun við almenning í landinu að veita rúmum hálfum milljarði til stjórnlagaþings," segir í tilkynningu frá Heimdalli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert