Um helmingur þeirra, sem tóku þátt í könnun Miðlunar á því hvaða mál væru mikilvægust í störfum væntanlegs stjórnlagaþings, nefndi umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.
Í lögum um stjórnlagaþing segir að það skuli taka til umfjöllunar ýmsa þætti. Þegar þessir þættir voru bornir undir þátttakendur í könnuninni töldu 50% að umhverfismál og auðlindir væri mikilvægasta málið. 49% töldu skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra mikilvægast og 41% taldi mikilvægast að fjalla um sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds.
Um var að ræða netkönnun, sem var gerð frá 28. október til 16. nóvember. Upphaflegt úrtak var 1600 einstaklinga og bárust svör frá 863 einstaklingum og var svarhlutfall því 53,9%.