Frambjóðendur til stjórnlagaþings streyma nú í hljóðstofur Ríkisútvarpsins og gera grein fyrir stefnumálum sínum. Öllum 523 frambjóðendunum var boðin þátttaka í kynningarþáttum RÚV og er talið að flestir þeirra þekkist boðið.
„Um 95% þeirra sem við höfum haft samband við eru mjög jákvæðir,“ sagði Ásgeir Eyþórsson, kynningarstjóri Rásar 2, en hann hefur umsjón með verkefninu. Hann telur að a.m.k. 80% frambjóðenda, 400-500 manns, mæti í upptökur á þeim tíma sem þeir voru boðaðir. Upptökurnar hófust í morgun og standa fram á mánudagsmorgun.
Fyrirkomulagið er þannig að hópur frambjóðenda svarar stöðluðum spurningum spyrils í hljóðveri. Hver frambjóðandi fær fimm mínútur til að svara. Þrír spyrlar skipta með sér verkum. Hringt verður í þá frambjóðendur úti á landi og erlendis sem hafa ekki tök á að koma í hljóðverið.
Útsending á kynningunum hefjast á mánudagskvöld á Rás 1. Kynningarnar verða einnig settar á vefinn www.ruv.is þar sem hver frambjóðandi fær sitt svæði. Þar verður hægt að hlusta á viðtal við hvern frambjóðanda um sig.