Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að embættismenn dómsmálaráðuneytisins hefðu skoðað frumvarp um breytingar á kosninga, sem þingmenn Sjálfstæðisflokks lögðu fram á þinginu í dag. Það væri mat þeirra að frumvarpið væri til þess fallið að styrkja lagagrunn og rétt sjónskertra.
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að lögmaður nokkurra blindra einstaklinga hefði lýst þeirri skoðun, að fyrirhuguð framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings væri ekki lögleg. Því sagðist Sigurður Kári hafa lagt fram að nýju frumvarp um framkvæmd kosninga og óskaði eftir því að frumvarpið yrði tekið á dagskrá og afgreitt hratt.
Ögmundur sagði að menn hlytu að hlusta á óskir og athugasemdir samtaka fatlaðra. Lagði hann til, að frumvarp Sigurðar Kára verði tekið á dagskrá, allsherjarnefnd þingsins fjalli síðan um málið og reynt verði að afgreiða það sem lög frá Alþingi í dag. Kosning til stjórnlagaþings fer fram á laugardag.
Samkvæmt frumvarpinu getur kjósandi, sem getur ekki kosið hjálparlaust vegna sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf, tilnefnt aðstoðarmann í kjörklefanum. Sá er bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli.
Tilnefni kjósandi engan til þess að veita honum aðstoð til þess að kjósa í kjörklefa, en sé
engu síður eigi fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sökum fötlunar, skuli honum heimilt að fá aðstoð þess úr kjörstjórninni sem hann tiknefnir. Slíka aðstoð skuli því aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim, sem aðstoðina
veitir, frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt.