Nokkuð fjölbreyttur hópur fólks var kjörinn til að sitja á stjórnlagaþingi, en sláandi er að aðeins 3 af 25 fulltrúum eru búsettir utan höfuðborgarsvæðisins. Fulltrúar á þinginu eru á aldrinum 24-70 ára, en stærsti aldurshópurinn er á aldrinum 60-70 ára.
Á kjörskrá voru samtals 232.374, en 83.531 greiddi atkvæði eða 35,95%. Heildarfjöldi ógildra atkvæða var 1.196 eða 1,4%.
Samkvæmt lögum um stjórnlagaþing má kynjamunur ekki vera meiri en 40%, en niðurstaðan varð sú að konur eru 40% þingfulltrúa og karlar 60%. Ekki kemur því til þess að þingfulltrúum verði fjölgað til að jafna kynjahlutfallið.
Ef hægt er að tala um einhvern einn sigurvegara í kosningunum þá er það Þorvaldur Gylfason prófessor en 7.192 settu hann í fyrsta sæti sem er meira en helmingi meira en næsti maður fékk, en það var Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar.
Þorvaldur og Salvör eru bæði starfsmenn Háskóla Íslands, en samtals náðu fimm háskólakennarar kjöri. Mikill meirihluti fulltrúa er með háskólamenntun af einhverju tagi.
Aðeins þrír fulltrúar búa á landsbyggðinni, þ.e. Akureyringarnir Dögg Harðardóttir og Erlingur Sigurðarson og Þingeyingurinn Ari Teitsson. Hugsanlega má flokka Lýð Árnason lækni sem landsbyggðarmann, en hann bjó til skamms tíma á Vestfjörðum.
Íris Lind Sæmundsdóttir lögfræðingur var næst því að ná kjöri á stjórnlagaþingið, en síðastur inn var Lýður Árnason. Lögin um stjórnlagaþing gera ekki ráð fyrir neinum varamönnum. Ef einhver forfallast verða þingfulltrúar einfaldlega færri. Landskjörstjórn kemur saman á morgun þar sem gengið verður frá kjörbréfum til þingfulltrúa og er þeim sem náðu kjöri boðið að vera viðstaddir.
Eins og kunnugt er tók talsvert langan tíma að telja, m.a. vegna þess að seðlar sem voru ógildir að hluta voru um 10 þúsund. Það var ekki bara landskjörstjórn sem sá um að tryggja að rétt væri talið því sérstakir menn gerðu sjálfstæða athugun á gæðum talningar. Jóhann Malmquist sagðist vera mjög ánægður með útkomuna. Hann sagði engan vafa leika á því að talningarvélarnar hefðu aukið nákvæmni talningarinnar. Útkoman hefði ekki orðið eins nákvæm ef talið hefði verið í höndunum, en hætta á mistökum við talningu eykst þegar frambjóðendur eru svona margir. Þeir voru 522. Frambjóðendur máttu fylgjast með talningu, en mjög fáir nýttu sér það.
Stjórnlagaþingið kemur saman í febrúar og reiknað er með að það starfi í tvo mánuði. Verkefni þess er að endurskoða stjórnarskrána. Samkvæmt lögunum á þingið sérstaklega að taka til umfjöllunar eftirfarandi: Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar, skipan löggjafarvalds og framkvæmdavalds og valdmörk þeirra, hlutverk og stöðu forseta, sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds, ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan, lýðræðislega þátttöku almennings, framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála og umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.
Lauk B.Sc. prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1992 og uppeldis- og kennslufræði frá Háskólanum á Akureyri (HA) 2000. Er í diplomanámi í heilbrigðisvísindum við HA.