Jarðeðlisfræðingurinn Ari Trausti Guðmundsson segist íhuga alvarlega að fara í forsetaframboð. „Ég hef alltaf haft áhuga á samfélagsmálum og forseti getur gert margt gott Það á ekki að hafa áhrif á ákvörðunina hverjir eru mótframbjóðendur,“ segir Ari Trausti í viðtali við Fréttatímann sem kemur út í fyrramálið.
Ari Trausti segir leiðirnar aðeins tvær. „Annaðhvort segir maður nei strax eða hugsar málið og ég er ekki fráhverfur framboði.“
Ari Trausti segir að áður en hann taki ákvörðun þurfi hann að leggja út í töluverða vinnu, halda fundi, hringja í mann og annan og kanna málið. „Þetta er spursmál um að fá fólk til vinnu, peninga og hugsanlegt fylgi og svo margt annað,“ segir Ari Trausti í samtali við Fréttatímann.